Erlent

Ítarlegar upplýsingar um öryggisleit óvart á vefinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Öryggisleit á flugvelli.
Öryggisleit á flugvelli.

Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna birti fyrir hreina slysni á heimasíðu sinni leiðbeiningar um öryggisleit á farþegum.

Um var að ræða leiðbeiningar fyrir öryggisverði sem sinna leit að vopnum og öðrum hættulegum varningi, heilar 93 blaðsíður með myndum af raunverulegum dæmum, upplýsingum um tæknilega eiginleika gegnumlýsingarvéla og sprengjuleitarbúnaðar og fleira sem alls ekki var ætlunin að kæmist í hendur annarra en þeirra sem við það starfa.

Margar þeirra starfsaðferða sem kenndar eru í leiðbeiningunum voru teknar upp eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 og meðal annars er þarna að finna ítarlegar myndir af skilríkjum ýmissa löggæslumanna, svo sem leyniþjónustunnar og löggæslumanna um borð í flugvélum, sem sagt efni sem samgönguöryggisstofnunin kærir sig án efa lítið um að komist í rangar hendur.

Washington Post hefur það eftir fyrrverandi starfsmanni heimavarnarmálastofnunar Bandaríkjanna að þarna séu á ferðinni gögn sem hiklaust geti auðveldað hryðjuverkamönnum að finna veika bletti á öryggisleit á flugvöllum landsins og sé málið því allt hið vandræðalegasta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×