Erlent

Washington Post rifar seglin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríska blaðið Washington Post lokar síðustu skrifstofum sínum utan Washington á gamlársdag vegna fjárhagsstöðu blaðsins.

Það eru aðsetur blaðsins í Chicago, Los Angeles og New York sem loka dyrum sínum um áramótin og mun blaðið þá sinna allri starfsemi sinni frá höfuðborginni Washington. Marcus Brauchli, ritstjóri Washington Post, segir stöðuna krefjast þess að blaðið einbeiti sér eingöngu að fréttaflutningi frá höfuðborginni og hringiðu stjórnmála þar, annars sé hreinlega ekki nokkur kostur. Þetta kom fram í minnisblaði sem hann sendi öllu starfsfólki blaðsins og Reuters-fréttastofan hefur undir höndum.

Þessu munu fylgja töluverðar uppsagnir en bandarískir fjölmiðlar hafa ekki farið varhluta af samdrætti vegna fjármálakreppunnar og hafa sagt upp mörg hundruð þúsund starfsmönnum síðan í fyrra. Washington Post er fimmta mest lesna dagblað Bandaríkjanna á virkum dögum og kemur út í 582.000 eintaka upplagi þá daga en sunnudagsblaðið er gefið út í rúmlega 800.000 eintökum.

Síðustu fimm áratugi hefur blaðið einkum verið þekkt fyrir öflugan fréttaflutning af bandarískum stjórnmálum og blaðamenn þess jafnan verið tíðir gestir í þinghúsinu Capitol Hill. Annáluð skrautfjöður í hatt blaðsins var umfjöllun þess um Watergate-hneykslið árið 1972 sem að lokum leiddi til afsagnar Richards Nixon Bandaríkjaforseta í ágúst 1974.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×