Lífið

Samdi hjartnæmt grínatriði

Sigurjón Kjartansson samdi grínatriði í tilefni söfnunar fyrir nýrri hjartaþræðingavél.
Fréttablaðið/gva
Sigurjón Kjartansson samdi grínatriði í tilefni söfnunar fyrir nýrri hjartaþræðingavél. Fréttablaðið/gva
Pétur Jóhann, Jón Gnarr, Páll Óskar og Jóhanna Guðrún verða á meðal þeirra sem koma fram í skemmtiþætti Stöðvar 2 á laugardagskvöld þar sem safnað verður fyrir Hjartaheill. Markmiðið er að safna fyrir nýrri hjartaþræðingavél sem kostar yfir 300 milljónir króna. Þema útsendingarinnar verður ástin, róman­tíkin og allt það sem talist getur hjartfólgið.

Sigurjón Kjartansson var fenginn til að semja grínatriði fyrir þáttinn og lauk verkefninu á einni helgi. „Mér var það bæði ljúft og skylt að taka þátt. Þetta eru mínir helstu vinir og snillingar í gegnum árin sem þarna koma fram," segir Sigurjón og á þar við Pétur Jóhann, Jón Gnarr, Kjartan Guðjónsson og Brynhildi Guðjónsdóttur. „Þetta er einn „skets" í tveimur hlutum sem tengist hjartanu og snýst um sjúkdómagreiningu. Þetta er mjög athyglisvert en ég held að þessir „sketsar" tali nú fyrir sig sjálfir." Leikstjóri var Sævar Guðmundsson sem leikstýrði einnig Rétti þar sem Sigurjón var einmitt handritshöfundur.

Sigurjón samdi síðast grínatriði fyrir áramótaskaupið og hefur því engu gleymt. „Þegar við gerðum áramótaskaupið var gott að geta gengið í „sketsareynsluna". Það er alltaf gott að hafa þennan bakgrunn."

Þátturinn á laugardag verður í tvær og hálfa klukkustund. Þar kemur einnig fram Ilmur Kristjánsdóttir sem ætlar að ræða við fólk á förnum vegi um ástina og rómantíkina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.