Erlent

Dönsk hegningarlög brotin nánast í heild sinni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Maður um þrítugt gekk berserksgang í danska bænum Horsens á Austur-Jótlandi í gær. Hann byrjaði á því að heimta peninga af manni og lemja hann svo með kúbeini þegar hann neitaði. Næst dró hann upp byssu og ógnaði öðrum manni með henni. Sá afhenti lyklana að bíl sínum og hvarf berserkurinn á brott á bílnum. Eftir stuttan akstur ók hann út í skurð. Þegar vegfarandi stoppaði til að athuga hvort maðurinn væri ómeiddur rændi hann bílnum af þeim manni og hélt för sinni áfram. Hann ók svo til bæjarins Vejle og fór þar átta sinnum yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Þegar lögreglumenn stöðvuðu för mannsins beindi hann byssunni að þeim og hótaði þeim lífláti. Þrátt fyrir þetta tókst þeim að handtaka hann án þess að beita eigin skotvopnum og gistir maðurinn nú fangageymslur. Væntanlega má hann búa sig undir slíka gistingu um einhvern tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×