Skoðun

Óþolandi óréttlæti

Sigrún Elsa Smáradóttir skrifar um jöfnunaraðgerðir

Konur hafa frá stofnun lýðveldisins verið færri á þingi en karlar. Í dag eru 23 konur á þingi en 40 karlar. Í sveitarstjórnum er hlutfall kvenna svipað, eða um 36%. Ekki er staðan betri í atvinnulífinu. Á athafnaárinu 2007 voru aðeins 8% stjórnarsæta skipuð konum í 100 stærstu fyrirtækjum landsins.

Það hallar því verulega á konur við stjórnun landsins. Óhætt er að fullyrða að ekki er um tilviljun að ræða, heldur kerfislægt óréttlæti í samfélaginu.

Þegar hugmyndir um aukið persónukjör til Alþingis eru skoðaðar er því ástæða til að spyrja hvort við séum nógu langt komin í jafnréttismálum til að valda því að velja kynin jöfnum höndum með slíkum aðferðum.

Af illri nauðsyn hafa þeir stjórnmálaflokkar sem láta sig þessi mál varða beitt sértækum aðgerðum eins og fléttulistum og kynjagirðingum í prófkjörum til að bregðast við þeim lýðræðisvanda sem skertur hlutur kvenna í stjórnmálum er. Markmiðið hlýtur þó alltaf að vera að leggja slíkar aðgerðir af, þegar árangri er náð.

Engin rök eru fyrir því að slíkar aðgerðir virki í báðar áttir þ.e. lyfti einnig körlum. Nái konur meiri árangri en karlar í prófkjörum á einstaka framboðslistum, ber að fagna því. Slíkur árangur kvenna kemur þá til, þrátt fyrir kerfislægt óréttlæti. Engin rök eru fyrir því að færa karla upp fyrir konur í slíkum tilvikum, þar sem ekkert kerfislægt óréttlæti hamlar framgangi karla og möguleikum þeirra til áhrifa í samfélaginu.

Kjördæmaskipting landsins er svo sjálfstætt vandamál í jafnréttismálum þar sem karlar raða sér að jafnaði í örugg sæti hringinn í kringum landið og konum oftar en ekki skipað í „baráttusætin" sem enda flest sem varaþingmannssæti. Það er því áleitin spurning hvort nauðsynlegt sé að gera landið að einu kjördæmi til að jafnvægi náist milli kynjanna á Alþingi.

En þar til óréttlætinu hefur verið útrýmt og jöfnum hlutföllum kynjanna er náð, eiga jöfnunaraðgerðir, sé þeim beitt, aðeins að virka í eina átt. Í átt til kvenfrelsis.

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×