Skoðun

Orð og ábyrgð

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 328/2008 voru aðdróttanir um Ásgeir Þór Davíðsson dæmdar dauðar og ómerkar. Blaðamaðurinn, nafngreindur höfundur viðtalsins, var dæmdur til greiðslu miskabóta og málskostnaðar. Þá var Vikunni gert að birta forsendur og dómsorð í næsta tölublaði tímaritsins.

Haldið hefur verið fram að þessi dómur hefti fjölmiðla, skapi réttaróvissu hjá blaðamönnum og leiði til breytinga á starfsumhverfi þeirra. Þá hefur verið fullyrt að dómurinn breyti skýrri réttarvenju. Það er rangt. Dómurinn byggir á skýru lagaákvæði og er í samræmi við fyrri dómaframkvæmd. Í 61. gr. stjórnarskrárinnar segir að dómendur skuli fara einungis eftir lögum. Í 2. mgr. 15. gr. prentlaga segir að höfundur beri ábyrgð á efni hafi hann nafngreint sig. Með vísan til þess komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að blaðamaðurinn bæri ábyrgð á aðdróttunum um Ásgeir Þór.

Ábyrgð blaðamannsins er grundvölluð á settri lagareglu sem staðið hefur óbreytt í íslenskum rétti í meira en fimmtíu ár. Dómurinn leiðir því ekki til réttaróvissu fyrir blaðamenn. Þvert á móti er réttarstaðan skýr. Blaðamaður ber ábyrgð á skrifum sínum eftir prentlögum ef hann nafngreinir sig með fullu nafni. Ef nafngreiningin er ekki fullnægjandi þá liggur ábyrgðin hjá ritstjóra eða útgefanda.

Engin rök standa því til þess að dómur Hæstaréttar leggi ný höft á fjölmiðla og blaðamenn. Blaðamenn geta eftir sem áður notað stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi að vild. Þeir þurfa hins vegar að ábyrgjast skrif sín fyrir dómi ef þau brjóta gegn lagareglum um æruvernd eða friðhelgi einkalífs. Sú var niðurstaðan í dómi Hæstaréttar þar sem blaðamaðurinn fullyrti í skrifum sínum að Ásgeir Þór hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þessar fullyrðingar blaðamannsins, sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum, voru ekki taldar rúmast innan 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Þess vegna voru ummælin dæmd dauð og ómerk og blaðamaðurinn dæmdur til greiðslu miskabóta og málskostnaðar.

Höfundur er héraðsdómslögmaður og flutti málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×