Sport

Símar Ferguson og Shearer voru hleraðir

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Man Utd og Alan Shearer kollegi hans hjá Newcastle eru meðal fjölmargra nafntogðra fórnarlamba í símahlerunarhneykslinu sem skekur Bretland.

Dagblaðið Guardian opinberaði í gær að fjölmiðlafyrirtækið sem meðal annars gefur út æsifréttablöðin News of the World og The Sun í Bretlandi hafa hakkað sig inn í farsíma þúsundir manna, meðal þeirra eru stórstjörnur og stjórnmálamenn.

 

Í tilfellum Ferguson og Shearer var um að ræða símtöl þeirra við Gordon Taylor, formann leikmannasamtakanna í enska boltanum. Aðeins er vitað að umræðuefni þessarra símtala snerust um Arsene Wenger knattspyrnustjóra Arsenal, Jamie Redknapp fyrrverandi leikmann Liverpool og enska landsliðsins, sjúkrahúsreikninga fyrrverandi landsliðsmannsins Paul Gascoigne, einnig hafi þeir rætt sín á milli um ónefndan leikmann í ensku úrvalsdeildinni sem á við kókaínvandamál að stríða.

News of the world hefur þegar greitt nokkrum af fórnarlömbum sínum milljónir í skaðabætur til að forðast dómsmál. Málið er litið mjög alvarlegum augum í Bretlandi, Gordon Brown forsætis­ráðherra lýsir yfir þungum áhyggjum og lögreglurannsókn er hafin á hlerununum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×