Enski boltinn

Babel vill fá annað ár til að sanna sig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ryan Babel.
Ryan Babel. Nordic Photos/Getty Images

Hollendingurinn Ryan Babel hefur beðið Rafa Benitez, stjóra Liverpool, um að fá eitt tímabil í viðbót til þess að sanna að hann geti vel spjarað sig hjá félaginu.

Babel hefur gengið illa að festa sig í sessi og hefur oftar en ekki verið á bekknum í sumar. Menn væntu mikils af honum í vetur eftir gott fyrsta tímabil en Babel hefur ekki alveg staðið undir þeim væntingum og hefur mikið verið skrifað um að hann verði seldur í sumar.

„Ég verð 23 ára í desember. Þá er ekki lengur hægt að tala um efnilega leikmenn og aldur verður engin afsökun en þjálfarar nota aldurinn oft sem afsökun," sagði Babel.

„Takmarkið hjá mér var að stíga næsta skref og tryggja mig inn í byrjunarliðið. Þá kom Liverpool með annan mann í mína stöðu sem hefur verið að spila reglulega," sagði Babel sem hefur mátt horfa upp á Riera eigna sér stöðuna hans.

„Ég verð að vera þolinmóður og geri mér grein fyrir því að ég þarf að vinna hörðum höndum. Ég verð að sanna fyrir stjóranum að ég sé tilbúinn og eigi skilið að vera valinn í liðið," sagði Babel sem er ánægður með að Benitez hafi framlengt við félagið.

„Ég veit hvar ég stend gagnvart honum og það veitir manni ákveðið öryggi. Hann hefur sagt mér hvað ég þurfi að bæta og ég er að vinna í því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×