Mótshaldarar á opna bandaríska meistaramótinu í golfi hafa frestað leik í dag. Kylfingar munu hefja leik á ný í fyrramálið.
Ekki er hægt að spila meira í dag vegna rigningar en Bethpage-völlurinn er algjörlega á floti.
Aðeins var hægt að spila í þrjá tíma og sextán mínútur í dag.
Jeff Brehaut, Johan Edfors, Andrew Parr og Ryan Spears leiða mótið eftir þennan stutta tíma en þeir voru á einu höggi undir pari þegar vatnið tók völdin.
Tiger Woods var búinn að leika sex holur þegar hann þurfti að hætta. Hann var þá á einu höggi yfir pari.
Phil Mickelson var á meðal þeirra 78 kylfinga sem náðu ekki að hefja leik í dag.
Veðurspáin lofar ekki góðu fyrir framhaldið og mótið gæti því hæglega dregist fram á næsta mánudag eða þriðjudag.