Erlent

Norðmenn hætta við æfingu gegn faraldri

Óli Tynes skrifar

Norska heilbrigðisráðuneytið hefur aflýst æfingu í viðbrögðum við smitsjúkdóms-faraldri sem halda átti á þessu ári.

Ástæðan er sú að ráðuneytið þegar að kljást við slíkan faraldur. Hundruð þúsunda Norðmanna hafa sýkst af svínaflensu eða grunur leikur á að þeir séu sýktir.

Ákvörðun um þessa æfingu var tekin árið 2007 og undirbúningur undir hana var því löngu hafinn. Heilbrigðisyfirvöld segja að þessi undirbúningsvinna hafi komið sér ágætlega í baráttunni við svínaflensuna.

Nú sé hinsvegar sú staða komin upp að verið sé að berjast í alvöru við þennan vágest og því óþarfi að halda æfingu á sama tíma.

Hinsvegar verði farið nákvæmlega yfir málið þegar svínaflensufaraldurinn er genginn yfir, til þess að sjá hvað hefði mátt betur fara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×