Erlent

Ólíklegt að fleiri finnist á lífi

gríðarleg Eyðilegging Hjálparstarfsmenn í Súmötru leita að lífi í húsarústum.Fréttablaðið/ap
gríðarleg Eyðilegging Hjálparstarfsmenn í Súmötru leita að lífi í húsarústum.Fréttablaðið/ap

Hjálparstarfsmenn telja ólíklegt að fleiri finnist á lífi í rústum á eyjunni Súmötru í Indónesíu. Tveir stórir jarðskjálftar skóku eyjuna í síðustu viku. Sá fyrsti var upp á 7,6 á Richter og sá síðari upp á 6,8.

Heilu þorpin lögðust í rúst í skjálftunum og vegaskemmdir hafa hindrað hjálparstarf í borginni Padang, sem fór sérstaklega illa út úr skjálftunum. Um þúsund hafa týnt lífi og allt að þrjú þúsund er saknað.

Hjálparstarfsmenn hafa miklar áhyggjur af svæðunum í kringum borgina. Íbúi í einu þorpinu sagði í samtali við Reuters-fréttastofuna að það væri óþarfi að senda hjálp á svæðið þar sem allir væru látnir.

Ian Bray, starfsmaður Oxfam-góðgerðarsamtakanna, sagði í samtali við fréttastofu BBC að gríðarlega erfitt verkefni biði hjálparstarfsmanna. „Það tekur tíu klukkutíma að keyra 25 kílómetra vegarkafla í Padang. Venjulega tekur það 35 mínútur,“ sagði hann.

Alistair Leithead, fréttamaður BBC, skoðaði aðstæður í einangruðu þorpi norðan við Padang. Hann segir eyðilegginguna ótrúlega. Heilu trén hafi rifnað upp í hlíðum og sturtast með jarðvegi í nærliggjandi dali. - afb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×