Erlent

Hraunfljótið ógnar íbúum

Hraunkvikan glóir Mannlífið í borginni Legazpi markast af nærveru við virkasta eldfjall Filippseyja.nordicphotos/afp
Hraunkvikan glóir Mannlífið í borginni Legazpi markast af nærveru við virkasta eldfjall Filippseyja.nordicphotos/afp

Mayon er virkasta eldfjallið á Filippseyjum. Fyrir fjórum árum þurftu þrjátíu þúsund manns að flýja að heiman þegar eldgos hófst í fjallinu. Annað eldgos árið 1993 kostaði 79 manns lífið.

Í gær þurftu tuttugu þúsund manns að flýja að heiman eftir að miklar öskusprengingar urðu í fjallinu á mánudagskvöld. Fljótandi hraunkvika fór síðan að streyma úr fjallinu í fyrrinótt og glóði á hana í myrkrinu.

Í næsta nágrenni fjallsins búa alls 50 þúsund manns, og þeir eru vanir því að þurfa að flýja þegar fjallið rumskar.

Þeir eru fluttir með herbílum til bæja og þorpa í nægilega mikilli fjarlægð, þar sem þeir fá inni í skólum og öðru bráðabirgðahúsnæði.

„Þetta er erfitt, sérstaklega fyrir börnin,“ segir Jukes Nunez, framkvæmdastjóri almannavarna í héraðinu, sem heitir Albay.

„Það eru tíu dagar til jóla. Líklega mun fólkið dveljast í neyðarskýlum. Ef ekkert dregur úr virkninni í Mayon getum við ekki leyft þeim að snúa heim.“

Sum þorpin voru reyndar tæmd strax í síðasta mánuði þegar fjallið byrjaði að spúa ösku.

Lífið hélt þó áfram sinn vanagang í mörgum afskekktustu þorpunum næst fjallinu.

„Við erum tilbúin, en ekki beint hrædd,“ sagði Romeo Opiana, 66 ára þorpsleiðtogi í Maninila. Þar búa 249 manns, sem hafa pakkað fötum og helstu nauðsynjum niður í töskur, en bíða átekta. Herflutningabíll er til reiðu ef ástandið versnar.

Stjórnvöld eru staðráðin í að eldsumbrotin í fjallinu kosti engin mannslíf í þetta skiptið.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×