Erlent

Sjö ákærðir fyrir hryðjuverkaárásirnar í Mumbaí

Fæddist í miðjum klíðum Þetta litla barn fæddist á sjúkrahúsi í Mumbaí, áður Bombei, meðan árás á sjúkrahúsið stóð yfir fyrir réttu ári.fréttablaðið/AP
Fæddist í miðjum klíðum Þetta litla barn fæddist á sjúkrahúsi í Mumbaí, áður Bombei, meðan árás á sjúkrahúsið stóð yfir fyrir réttu ári.fréttablaðið/AP

Sjö menn voru í gær ákærðir í Pakistan fyrir aðild að hryðjuverkaárásum í Mumbaí á Indlandi á síðasta ári. Þetta eru fyrstu ákærurnar í Pakistan vegna málsins.

Í dag er ár liðið frá því að hryðjuverkamenn gerðu árás á nokkrar helstu byggingarnar í fjármálaborginni Mumbaí, einni stærstu borg Indlands. Árásirnar kostuðu 166 manns lífið.

Mennirnir sjö neita ásökunum, en þeir eiga yfir höfði sér dauðadóm. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa aðstoðað við undirbúning og framkvæmd árásanna. Þeir eru allir sagðir meðlimir í Lashkar-e-Taíba, samtökum herskárra múslima sem staðið hafa að ýmsum hryðjuverkum á Indlandi.

Indversk stjórnvöld hafa sakað tvo mannanna, Zaki-ur-Rehman Lakhvi og Zarrar Shah, um að vera höfuðpaurana á bak við árásirnar.

Stjórnvöld í Pakistan hafa til þessa aldrei dregið neina hryðjuverkamenn, sem hafa gert árásir í Indlandi, til ábyrgðar fyrir dómstólum.

Á Indlandi standa enn yfir réttarhöld yfir eina árásarmanninum, sem lifði af. Í þeim réttarhöldum hefur komið fram að hópur tíu árásarmanna lagði af stað siglandi frá höfninni í Karachi í Pakistan og kom til Mumbaí. Þar skiptu þeir sér í hópa og réðust inn á hótel, lestarstöð, sjúkrahús og fleiri byggingar.

Leyniþjónusta Pakistans og þarlend stjórnvöld hafa lengi verið sökuð um stuðning við Lashkar-e-Taiba og fleiri herská samtök, og notað þau sem eins konar staðgengil fyrir pakistanska herinn í langvinnum átökum við Indland út af Kasmír-héraði, sem bæði löndin gera tilkall til.

Stjórnin í Pakistan segir þetta liðna tíð, en margir pakistanskir stjórnmálamenn og yfirmenn í hernum virðast enn hafa taugar til hryðjuverkasamtaka sem gera árásir á Indlandi.

Bæði Indverjar og stjórnvöld víða á Vesturlöndum munu því fylgjast grannt með því hvernig réttarhöldunum í Pakistan vindur fram.

Pakistönsk stjórnvöld hafa undanfarið farið í hart gegn talibönum og fleiri uppreisnarhópum í norðvesturhluta landsins, nú síðast í héraðinu Suður-Waziristan þar sem talibanar hafa hreiðrað um sig.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×