Erlent

Dularfullt leynifangelsi í litháískum reiðskóla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríska leyniþjónustan CIA rak leynilegt fangelsi fyrir liðsmenn al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna í gömlum reiðskóla í Litháen.

Litháíska þingið hefur fyrirskipað rannsókn þessa dularfulla máls eftir að Dalia Grybauskaite, forseti landsins, sagðist hafa fengið upplýsingar um málið eftir krókaleiðum. ABC-fréttastofan kannaði málið og fékk það upp úr fyrrverandi liðsmönnum CIA, sem að sjálfsögðu eru ekki nafngreindir, að leyniþjónustan hafi látið byggja leynilegt fangelsi frá grunni á lóð reiðskólans árið 2004.

Skólinn hafði þá hætt starfsemi og umferð um lóðina verið lítil en staðurinn er í rúmlega 20 kílómetra fjarlægð frá litháísku höfuðborginni Vilnius. Eftir að fangelsinu hafði verið komið upp, að hluta til neðanjarðar og með tilheyrandi öryggismyndavélum og öðrum eftirlitsbúnaði, segja heimildamenn ABC að flogið hafi verið með að minnsta kosti átta grunaða al-Qaeda-liðsmenn til Litháen og þeir vistaðir og yfirheyrðir í gamla reiðskólanum.

Litháískir stjórnmálamenn, sem gegndu embættum árið 2004, þverneita allri vitneskju um málið og segja engin gögn benda til þess að fangelsið hafi verið til. Grybauskaite forseti er þó ekki sátt við þær skýringar og segir að hafi þetta raunverulega átt sér stað þurfi litháískir valdamenn að biðja alþjóðasamfélagið afsökunar auk þess að tryggja að svona lagað gerist aldrei aftur í landinu. Litháen er þriðja Evrópusambandslandið sem grunur leikur á að hafi hýst leynifangelsi á vegum CIA en hin tvö eru Pólland og Rúmenía.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×