Erlent

Áhrifamikill þingmaður vill að Bandaríkin ráðist inn í Yemen

Joseph Lieberman er fyrsti gyðingurinn til að vera í framboði fyrir demókrata eða repúblíkana í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann var varaforsetaefni Al Gores í kosningunum árið 2000.
Joseph Lieberman er fyrsti gyðingurinn til að vera í framboði fyrir demókrata eða repúblíkana í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann var varaforsetaefni Al Gores í kosningunum árið 2000.
Haft var eftir bandaríska öldungadeildarþingmanninum og demókratanum Joseph Lieberman á Fox fréttastöðinni, að Bandaríkjamenn ættu að ráðast á Yemen að fyrra bragði. Fyrirsjáanlegt væri að þar yrðu átök.

Bandaríkjamenn gerðu flugskeytaárásir í Yemen fyrir fáum dögum. Á sjöunda tug manna fórst í árásinni, þar af 23 börn, að sögn Yemenskra mannréttindasamtaka. Haft var eftir talsmönnum bandarískra yfirvalda í þarlendum fjölmiðlum að árásinni hefði verið beint að tveimur æfingabúðum Al-Kaída.

Hryðjuverkasamtökin Al-Kaída hafa lýst á hendur sér tilraun til þess að sprengja farþegavél Northwest flugfélagsins í loft upp á jóladag í flugi milli Amsterdam og Detroit en nígerískur farþegi um borð í vélinni reyndi að sprengja sprengju sem hann hafði meðferðis en mistókst.

Í yfirlýsingu Al-Kaída segir að ætlunin hafi verið að hefna fyrir aðgerðir Bandaríkjahers í Yemen og hafi nýrri gerð af sprengju verið beitt sem hafi ekki sprungið vegna tæknilegra mistaka. Þá segir að Bandaríkjamenn megi búast við fleiri árásum.

Lieberman hefur átt sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings frá árinu 1988 fyrir Connecticut. Hann var varaforsetaefni demókrata í forsetakosningunum fyrir níu árum. Lieberman tapaði í forvali flokksins í Connecticut í aðdraganda þingkosninganna 2006 en náði engu að síður kjöri sem óháður þingmaður fyrir fylkið.

Þrátt fyrir að hafa lýst yfir stuðningi við John McCain, forsetaefni Repúblíkanaflokksins í forsetakosningunum í fyrra, er Liberman enn skráður í Demókrataflokkinn. Hann er formaður heimavarnarmálanefndar öldungadeilarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×