Erlent

Pútín vill vopnakerfi sem svar við eldflaugakerfi Bandaríkjanna

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands og fyrrum forseti, segir að Rússar þurfi að þróa sérstakt vopnakerfi sem andsvar við eldflaugakerfi Bandaríkjanna til þess að halda valdajafnvægi við Bandaríkin. Pútín segir að að öðrum kosti séu Bandaríkjamenn í fullkomnu skjóli og geti í raun gert það sem þeim dettur í hug.

Bandaríkjamenn hættu við umdeildar áætlanir um eldflaugavarnir í Tékklandi og Póllandi fyrr á þessu ári en tilkynntu um leið að þeir hygðust þróa önnur varnarkerfi.

Pútin segir að eldflaugavarnarkerfi sé ekki heppileg lausn fyrir Rússa, en hefur ekki viljað ræða hvers konar vopnakerfi hann vill að Rússar komi sér upp. Þessar yfirlýsingar Pútíns eru athyglisverðar fyrir þær sakir að á næsta ári hyggjast Bandaríkjamenn og Rússar undirrita sérstakt samkomulag um fækkun kjarnavopna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×