Erlent

Prófa niðurgangslyf á sólarströndum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Strönd í Cancun.
Strönd í Cancun.

Bandarískt lyfjafyrirtæki hyggst bjóða 1.800 sjálfboðaliðum á sólarströnd til að prófa nýtt lyf við niðurgangi.

Það er fyrirtækið Intercell sem ætlar að vera svona rausnarlegt gegn því að mannskapurinn, sem er á aldrinum 18 - 64 ára og af báðum kynjum, prófi nýja lyfið í ferðalaginu en það er gefið með plástri sem seytir lyfinu smám saman gegnum húð notandans og þarf aðeins að bera plásturinn í sex klukkustundir, þremur vikum áður en lagt er upp í ferð til framandi landa en steinsmugan er gjarnan fylgifiskur slíkra ferðalaga vegna framandi fæðu og misgóðs drykkjarvatns auk annars.

Fyrstu prófanir lyfsins, sem gerðar voru á 170 manns, gefa til kynna að draga megi úr líkunum á búkhlaupi um allt að 75 prósent sé það notað. Hópurinn í nýju tilrauninni fer til Mexíkó og Guatemala og dvelst þar í góðu yfirlæti á hótelum. Sá galli fylgir þó gjöf Njarðar að mannskapurinn má ekki fara lengra en sem nemur þriggja klukkustunda ferð frá tilraunamiðstöðvum sem Intercell setur upp á stöðunum og eiga að leita þangað hið bráðasta skynji þeir yfirvofandi þúfnalúru og fara í blóðprufu auk þess að skilja innanskömm sína eftir í vörslum umsjónarmanna Intercell.

Stjörnugjöf hótelanna sem mannskapurinn dvelst á má ekki fara fram úr þremur stjörnum svo líklegra þyki að maturinn sem borinn er fram valdi þeim innantökum með tilheyrandi leysingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×