Skoðun

Kompás söknuður

Guðjón Sigurðsson skrifar
Að taka Kompás af skjánum voru mikil mistök að mínu mati. „Er ekki nóg af fréttaþáttum?“ spyrja þá einhverjir. Jú það er alveg hárrétt en Kompás hefur sérstöðu fyrir efnistök og efnisval og ekki síður það traust sem þau nutu sem unnu við þáttinn. Dögg Pálsdóttir greiddi fyrir að fá að koma í tvö viðtöl í aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðisflokksins.

Dögg sýnir kjark og þor að segja frá þessu en um leið afhjúpar hún miðlana sem við greiðslunum tóku. Þetta segir mér að nauðsynlegt sé að gera rannsóknarblaðamennsku hátt undir höfði, hér í landi spillingar á öllum sviðum.

Kompás var tilnefndur til Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands á síðasta ári fyrir vandaða umfjöllun um mál þeirra sem minna mega sín. Í kjölfar umfjallana Kompáss hefur margur verið dreginn fyrir dómstóla og réttlætið hefur náð fram að ganga í mörgum tilvikum. Athygli landans fangast og upplýst umræða blómstrar í framhaldinu.

Þar sem ráðamenn Stöðvar 2 átta sig greinilega ekki á nauðsyn þess að hafa Kompás á dagskrá þá hlýtur að vera léttur leikur fyrir RÚV að tryggja sér krafta þeirra sem á bak við hann standa.

Glæpamenn þessa lands héldu örugglega margra daga veislu við þá frétt að Kompás væri allur. Látum ekki barnaníðinga, klámhunda, kerfiskalla og aðra komast upp með fagnaðarlæti í langan tíma. Jóhannes, Kristinn og Ingi, nú er að rífa sig uppúr volæðinu og hefjast handa við að trufla skipulagða og óskipulagða glæpastarfsemi á íslandi strax.

Höfundur er formaður MND félagsins.




Skoðun

Sjá meira


×