Erlent

Tilbúnir að hætta stækkun landnemabyggða

Óli Tynes skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Mynd/AP
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Mynd/AP
Ísraelar segjast tilbúnir til að hætta stækkun landnemabyggða á Vesturbakkanum í níu mánuði til þess að koma friðarviðræðum af stað.

Stækkun landnemabyggða Ísraela á Vesturbakkanum hefur verið helsti þröskuldurinn í veg fyrir því að friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna væri haldið áfram.

Bandaríkjamenn hafa lagt hart að Ísraelum að frysta frekari framkvæmdir. Ísraelskur embættismaður sagði í dag að þeir væru tilbúnir til þess að frysta framkvæmdir í níu mánuði til þess að gefa Bandaríkjamönnum tækifæri til þess að koma viðræðunum aftur af stað.

Framtíð landnemabyggðanna yrðu þá liður í viðræðunum. Það verður þrautin þyngri að ná endanlegu samkomulagi um þær.

Palestínumenn vilja stofna sjálfstætt ríki sitt á Vesturbakkanum og Gaza ströndinni með Austur-Jerúsalem sem höfuðborg þess ríkis.

Þeim finnst ísraelskar landnemabyggðir ekki eiga heima innan landamæra þess ríkis. Erfitt verður að fá Ísraela til að samþykkja að leggja landnemabyggðirnar alveg niður og þeir hafa lýst því yfir að þeir muni aldrei fallast á að Jerúsalem verði skipt upp á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×