Erlent

Jarðskjálfti fimm árum eftir flóðbylgju

Heimir Már Pétursson skrifar

Þess er nú minnst víða í Asíu að fimm ár eru liðin frá því um 230 þúsund manns fórust í einni mestu flóðbylgju og hamförum í manna minnum. Jarðskjálfti upp á 6,7 á rickter varð undan Malukueyjum í Indónesíu í dag, en engar fréttir hafa borist af manntjóni eða flóðbylgjum vegna hans.

Það var á öðrum degi jóla árið 2004 að risavaxin flóðbylgja skall á ströndum rúmlega tíu ríkja við Indlandshaf. Eyðileggingarmáttur flóðbylgjunnar var gífurlegur og hreyf hún með sér allt sem fyrir henni varð; fólk, hús, báta og önnur farartæki.

Þegar upp var staðið er talið að um 230 þúsund manns hafi farist, þótt sú tala verði ef til vill aldrei nákvæm. Flestir hinna látnu voru íbúar þeirra landa sem urðu fyrir flóðbylgjunni en einnig gífurlegur fjöldi erlendra ferðamanna víðs vegar að úr heiminum, meðal annars frá Norðurlöndunum.

Íslenska þjóðin lagði til farþegaþotu, lækna, hjúkrunarfólk og bráðaliða til að flytja særða og syrgjandi Norðurlandabúa heim til sín og aðstoð barst einnig að frá fjölmörgum ríkjum. Flóðbylgjan myndaðist vegna mesta jarðskjálfta á jörðinni í 40 ár en hann varð neðansjávar og mældist 9,2 á richter kvarða.

Aceh hérað á Súmötru varð hvað verst úti í hamförunum og þar eru haldnar bænastundir í moskum héraðsins í dag. Flóðbylgjan þurrkaði út heilu þorpin og sundraði fjölskyldum. Yfir átta þúsund Taílendingar og ferðamenn í Taílandi fórust. Um 48 þúsund manns fórust á ströndum Sri Lanka og Indlands og í Indónesíu fórust yfir 167 þúsund manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×