Viðskipti innlent

AGS: Erlendar skuldir á bilinu 307-350%

Erlendar skuldir einkaaðila eru hærri en áður var talið, og því er skuldahlutfall Íslands hærra en það var við fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Liggur það á bilinu 307-350%.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að skuldir hins opinbera séu lægri en talið var við fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Það sé aðallega vegna þess að mun minni kostnaður hefur hlotist af endurreisn bankakerfisins en áætlað var í fyrstu. Þar ræður mestu að erlendir kröfuhafar hafa tekið yfir stærstan hlut í Arion banka og Íslandsbanka, sem minnkar fjárinnspýtingu ríkisins í bankana.

Erlendar skuldir einkaaðila séu hins vegar hærri en áður var talið, og því sé skuldahlutfallið margumrædda hærra en það var við fyrstu endurskoðun. Þá voru erlendar heildarskuldir þjóðarbúsins taldar 307% af landsframleiðslu. Morgunblaðið greindi frá því fyrir skömmu að skuldahlutfallið væri nú komið upp í 350%, vegna hærri skulda einkageirans.

Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar AGS, segir að ekki sé búið að leggja endanlegt mat á stöðuna, en hlutfallið sé einhversstaðar á þessu bili. Það sé þó nær 307% en 350%. Þessi hækkun á heildarskuldum þjóðarbúsins hefur þó ekki umtalsvert áhrif á getu þjóðarinnar til að standa undir skuldunum, að mati sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.








Tengdar fréttir

AGS með blaðamannafund

Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi og Franek Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins, kynna vinnu sendinefndarinnar og árangur viðræðna við íslensk stjórnvöld á fundi í dag. Sendinefnd AGS kom til landsins í byrjun mánaðarins og hefur staðið í viðræðum við stjórnvöld síðan þá um aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands.

Gylfi ánægður með árangurinn af heimsókn AGS

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra er ánægður með árangurinn ef heimsókn sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) til Íslands. Heimsóknin var liður í annarri endurskoðun sjóðsins á framkvæmd efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og AGS.

AGS: Samkomulag um aðra endurskoðun

Íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa náð samkomulagi um aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Þetta var tilkynnt á fundi með forsvarsmönnum AGS á Íslandi, þeim Mark Flanagan og Franek Roswadovski. Sendinefnd sjóðsins hefur fundað með stjórnvöldum hér á landi og öðrum áhrifamönnum úr viðskiptalífi landsins og fulltrúum launþega síðustu vikur. Búist er við því að hægt verði að leggja áætlunina fyrir framkvæmdastjórn AGS í janúar á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×