Erlent

Biðja um aðstoð í baráttunni gegn al-Kaída

Abu Bakr al-Qirbi, utanríkisráðherra Jemen.
Abu Bakr al-Qirbi, utanríkisráðherra Jemen.
Utanríkisráðherra Jemen fullyrðir að Jemenar hafi bæði getu og vilja til að takast á við al-Kaída hryðjuverkasamtökin en skorti hjálp frá Vesturlöndum. Hann telur mikilvægt að Vesturlönd setji aukinn kraft í aðstoð sína við heimamenn í landinu.

Nígeríumaðurinn, Umar Farouk Abdul Mutallab, sem gerði tilraun til þess að sprengja farþegavél Northwest-flugfélagsins í loft upp á jóladag í flugi milli Amsterdam og Detroit hlaut hryðjuverkaþjálfun í búðum al-Kaída í Jemen.

Utanríkisráðherrann segir nokkur hundruð meðlimi hryðjuverkasamtakanna dvelja í Jemen og að öllum líkindum hafi þeir hug á að gera fleiri árásir.

Bandaríkjamenn gerðu nýverið flugskeytaárásir á æfingabúðir hryðjuverkamanna í Jemen. Öldungadeildarþingmaðurinn Joseph Lieberman telur að Bandaríkjamenn eigi að ráðast inn í landið þar sem fyrirsjáanlegt sé að þar verði átök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×