Skoðun

Barna- og unglingastarf í uppnámi

Endurskoðuð fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar liggur nú fyrir, samþykkt af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fjárhagsáætlun sem meirihlutinn fullyrðir að stríði ekki gegn aðgerðaráætlun borgarinnar, þar sem kveðið er á um að standa skuli vörð um störf á vegum borgarinnar, þjónustan verði ekki skert og gjaldskrár ekki hækkaðar.

Fullyrðingar meirihlutans standast því miður ekki. Á flestum sviðum er gengið í berhögg við aðgerðaráætlunina, en tvö skýr dæmi um það er að finna í endurskoðaðri fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs.

Í fyrsta lagi er alls ekki útséð um að staðinn verði vörður um störf á vegum sviðsins, þar sem ekki hefur verið tryggt fjármagn í starfsemi vinnuskólahópa á vegum félagsmiðstöðvanna í ár. Félagsmiðstöðvahóparnir hafa verið starfræktir um margra ára skeið og hafa reynst afar mikilvægir fyrir unglinga í áhættuhópi. Áframhaldandi starf og áframhaldandi fastráðning 22 starfsmanna ÍTR veltur á því að einhvers staðar finnist 10 milljónir króna. Hagræðing um 10 milljónir þar sem mikilvægt forvarnarstarf og 22 stöðugildi eru í húfi getur ekki borgað sig.

Annað skýrt dæmi um skammsýni meirihlutans eru áform um að loka frístundaheimilum á frídögum skóla. Frá stofnun frístundaheimilanna hefur frístundastarf staðið börnum í 1.-4. bekk til boða allan daginn á starfsdögum og foreldraviðtalsdögum, í jólafríum og páskafríum. Í hagræðingarskyni ætlar meirihlutinn nú að afnema þessa þjónustu og fría sig ábyrgð á börnunum í borginni þá 16 daga sem um er að ræða á hverju ári.

Forgangsröðun meirihlutans kemur ekki aðeins til með að bitna á börnum og fjölskyldum samtímans, heldur er hún verulega kostnaðarsöm þegar til lengri tíma er litið. Það vita Finnar og það vita Svíar. En meirihlutinn hefur ekki – og ætlar ekki – að taka mið af reynslu nágrannaþjóða okkar. Markmið þeirra er að skila sléttu og snurðulausu bókhaldi á síðasta ári fyrir kosningar. Redda deginum í dag og árinu í ár. Slík vinnubrögð eru óábyrg og beinlínis skaðleg fyrir samfélagið Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×