Innlent

Jónas sat með Baldri á samráðsfundunum

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), nýtti ekki upplýsingar af fundum samráðshóps sem hann átti sæti í þegar embættið rannsakaði upphaflega meint innherjaviðskipti Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra.

Fundargerðir hópsins uppgötvuðust eftir forstjóraskipti hjá FME og þóttu upplýsingarnar sem þar komu fram þá svo bitastæðar að ákveðið var að taka málið upp á ný.

Fyrir dómi á þriðjudag var tekist á um þá kröfu Baldurs að rannsókn sérstaks saksóknara á máli hans yrði látin niður falla. Viðskiptablaðið greinir ítarlega frá málflutningnum í nýjasta tölublaði sínu.

Meðal þess sem þar kemur fram er að endurupptaka málsins í júní hafi auk annars byggt á fundargerðum samráðshóps Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Ábending hafði þá borist um að þær fundargerðir væru til hjá Seðlabankanum, en FME hafði fram að því ekki aðgang að þeim.

Jónas Fr. Jónsson var forstjóri FME þegar rannsókn á máli Baldurs hófst. Hann átti hins vegar líka sæti í samráðshópi Seðlabankans, ásamt Baldri og öðrum embættismönnum, og sat samkvæmt heimildum Fréttablaðsins alla þá fundi sem skipta máli þegar mál Baldurs er annars vegar. Honum ætti því að hafa verið kunnugt um þær upplýsingar sem endurupptaka málsins byggði meðal annars á.

Gunnar Andersen tók við sem forstjóri FME um vorið og það var hann sem ákvað að hætta rannsókninni á máli Baldurs. Fundargerðir samráðshópsins, og upplýsingarnar úr þeim, lágu þá hvergi fyrir hjá embættinu.

Ekki náðist í Jónas Fr. Jónsson við vinnslu fréttarinnar.- sh /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×