Innlent

Lögspekingar telja Icesave frumvarpið ekki stangast á við stjórnaskrá

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson.

Þrír af þeim fjórum lögspekingum sem kallaðir voru fyrir fjárlaganefnd í dag til þess að ræða hvort fyrirhuguð lög um ríkisábyrgð vegna Icesave samningana standist stjórnarskrá eru á því að svo sé ekki. Sá fimmti telur að þessa spurningu þurfi að kanna frekar.

Guðbjartur Hannesson formaður nefndarinnar segir að menn hafi farið yfir málið á fundinum. „Ég hef nú sagt að alltaf þegar við köllum saman nokkra lögfræðinga þá fáum við aldrei eina niðurstöðu."

Meginspurningin á fundinum í dag var sú hvort frumvarpið stangist á við stjórnarskrá. „Sigurður Líndal hefur sagt það álitamál, en hinir þrír sem voru á fundinum telja frumvarpið ekki stangast á við stjórnarskrána og telja ekki ástæðu til þess að kalla eftir einhverjum greinargerðum," segir Guðbjartur.

Á fundinum kom fram ósk frá einum nefndarmanna um að skoða málið betur og taldi Sigurður einnig ástæðu til að gera það í ljósi stærðar málsins. „Nefndin sem slík tók ekki afstöðu til þess," segir Guðbjartur og segir að nú fari málið til umræðu í stjórnmálaflokkunum hverjum fyrir sig.

„Þetta er það alvarlegt mál að menn eru ekkert að leika sér með niðurstöðuna. Þá metur hver flokkur fyrir sig niðurstöðuna og við í nefndinni tökum þá afstöðu í framhaldi af því," segir Guðbjartur og tekur fram að sér finnist ekki ástæða til þess að kalla eftir sérstakri greinargerð. „Ég held að við munum ekki fá betri svör en þetta. Þá mun það verða eins og gjarnan er með svona álit að það mun verða deilt um þau ekkert síðar en málið sjálft. Við getum ekkert falið okkur á bakvið stjórnarskrána í þessu máli, þetta er bara ákvörðun Alþingis."

Lögfræðingarnir sem kallaðir voru á fund nefndarinnar voru auk Sigurðar Líndal, þau Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen og Ragnhildur Helgadóttir.






Tengdar fréttir

Fjárlaganefnd: Lögspekingar ræða Icesave og stjórnarskrá

Nokkrir af virtustu lögfræðingum landsins hafa verið boðaðir á fund fjárlaganefndar í hádeginu í dag. Kallað hefur verið eftir áliti þeirra á því hvort fyrirliggjandi frumvarp um ríkisábyrgð í Icesave málinu standist stjórnarskrána. Á meðal gesta nefndarinnar í dag er Sigurður Líndal prófessor sem á dögunum skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem vakin er athygli á því hve lítil umræða hafi farið fram um Icesave með tilliti til stjórnarskráarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×