Innlent

Össur ræðir um lán og ESB í New York

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Lánveitingar Norður­landanna til Íslands voru til umræðu á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með norrænum og baltneskum starfsbræðrum sínum í New York í Bandaríkjunum í gær.

Þeir eru þar vegna Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem þar stendur yfir.

„Ég lagði áherslu á að frændþjóðir okkar leggðu allt af mörkum til að ljúka þessu og þeir sögðust myndu gera sitt allra besta í málinu og reyna að hraða því,“ sagði Össur í samtali við Fréttablaðið.

Nokkuð er um liðið síðan samið var við norrænu ríkin um sameiginlegar lánveitingar til Íslands upp á jafnvirði um 300 milljarða króna. Veiting lánanna hefur strandað á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands.

Það mál ræddi Össur við Dominique Strauss-Kahn, forstjóra AGS, í fyrrakvöld. „Ég lagði áherslu á að Íslendingar vildu fá endurskoðunina afgreidda sem allra fyrst,“ sagði Össur. Viðbrögð Strauss-Kahn voru á þann veg að hann lýsti yfir skilningi á stöðunni og sagðist vonast til að sem fyrst yrði hægt að ryðja úr vegi hindrunum fyrir endur­skoðuninni.

Þetta er það eina sem Össur vill láta uppi um viðbrögð Strauss-Kahns.

Á hinn bóginn sagði hann viðræður þeirra hafa verið hreinskiptar og gagnlegar. Þeir hafi rætt Icesave-málið í þaula og hann gert forstjóranum grein fyrir pólitískri stöðu þess á Íslandi. „Ég sagði honum jafnframt að það væri óviðunandi ef Icesave-málið hefði áhrif á afgreiðslu AGS. Sú deila kæmi sjóðnum ekki við.“

Össur situr fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um afvopnunarmál í dag og flytur ræðu á sjálfu allsherjarþinginu á laugardag. Í fyrradag sótti hann leiðtogafund um loftslagsbreytingar og tók þátt í hringborðsumræðum um hvernig tryggja megi hagvöxt í heiminum án þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda.

Auk þessa á hann um tuttugu tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum og þjóðarleiðtogum meðan á þinginu stendur. Á þeim verður meðal annars rætt um aðildarumsókn Íslands að Evrópu­sambandinu. bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×