Erlent

Ekki þörf fyrir eldflaugakerfi við Eystrasalt

Óli Tynes skrifar
Rússar segja að þar sem Bandaríkin hafi hætt við að setja upp loftvarnaflaugar í Austur-Evrópu sé engin þörf fyrir þá að setja upp eldflaugakerfi við Eystrasalt.

Rússar höfðu hótað því að ef Bandaríkjamenn settu upp tíu loftvarnaeldflaugar í Póllandi og Tékklandi myndu þeir setja upp eigið eldflaugakerfi í Kalinigrad. Kalinigrad er smá landskiki við Eystrasaltið sem hefur enga landfræðilega tengingu við Rússland, en á landamæri að Litháen og Póllandi.

Rússar hafa mjög fagnað þeirri ákvörðun Baracks Obama að hætta við að setja upp loftvarnaflaugarnar. Vladimir Putin forsætisráðherra sagði að það væri djörf ákvörðun sem væri öllum til góðs.

Dmitry Rogozin, fulltrúi Rússlands hjá Atlantshafsbandalaginu, sagði að ákvörðun Bandaríkjaforseta gerði sjálfkrafa að verkum að Rússar sæju enga þörf fyrir að setja upp eldflaugar í Kalinigrad.

Rogozin tók einnig vel í tillögu Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, um aukna samvinnu og jafnvel sameiginlegar loftvarnir. Hann sagði að tillögurnar væru mjög jákvæðar og uppbyggilegar og Rússar væru sannarlega reiðubúnir að setjast niður og ræða þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×