Lífið

Færri taka á móti stúdentum

María Rut Baldursdóttir vill ekki að vísindaferðir háskólanema leggist alveg af. fréttablaðið/anton
María Rut Baldursdóttir vill ekki að vísindaferðir háskólanema leggist alveg af. fréttablaðið/anton
Orðið vísindaferð hefur verið notað um skipulagðar ferðir háskólanema til ýmissa fyrirtækja og stofnana. Í þessum ferðum er starfsemi fyrirtækisins kynnt fyrir nemendum auk þess sem boðið er upp á veitingar. Í kreppunni hefur þó eitthvað borið á að vísindaferðum háskólanema hafi fækkað og þykir mörgum það slæm þróun.

Samkvæmt Hönnu Maríu Guðbjartsdóttur, formanni Aminu, nemendafélags sálfræðinema, hefur vísindaferðum sálfræðinema fækkað lítillega síðan kreppan skall á. „Munurinn felst aðallega í þeim fjölda nemenda sem fyrirtækin taka á móti í hverri ferð. Núna eru þetta kannski þrjátíu manna hópar, en áður voru þeir mun stærri. Við höfum einnig orðið vör við að bankarnir og aðrar ríkis­reknar stofnanir taka ekki lengur á móti háskólanemum.“

María Rut Baldursdóttir, formaður Fisksins, nemendafélags guðfræðinema, segir að lítið verði um vísindaferðir hjá deildinni í vetur. „Við höfum verið að reyna að komast að hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum en ekkert gengið. Í fyrra fórum við í þó nokkrar vísindaferðir og árið þar á undan fórum við nánast aðra hverja helgi.“ Aðspurð segir María Rut að það yrði mikill missir ef vísindaferðirnar legðust alveg af. „Það var gott fyrir námsmenn að fá tækifæri til að kynnast starfi fyrirtækja og því væri slæmt ef þessi hefð legðist af. Ég held þó að það muni ekki hafa mikil áhrif á félagslíf guðfræðinema því við erum svo fámenn deild að við getum auðveldlega hist í heimahúsi eða farið saman í keilu.“

- sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.