Skoðun

Framsókn horfir víst til vinstri

Einar Skúlason skrifar
Skúli Helgason, frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sá ástæðu til að gera formanni Framsóknarflokksins upp skoðun í grein í Fréttablaðinu mánudaginn 9. mars. Þar heldur Skúli því fram að formaður Framsóknarflokksins hafi tilkynnt opinberlega að flokkurinn væri opinn í báða enda í hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum. Skúla til upplýsingar og kannski hugarhægðar, þá lýsti formaður Framsóknar þeirri skoðun sinni í viðtali við mbl.is þann 5. mars sl. að hann vonaðist eftir vinstri stjórn! Það eina sem gæti komið í veg fyrir myndun hennar væri skortur á vilja hjá vinstri flokkunum. Hann ítrekaði síðan að hann myndi alltaf setja vinstri stjórn sem fyrsta kost. Hið sama sagði Eygló Harðardóttir, þingmaður og ritari Framsóknarflokksins í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 þann 23. febrúar.

Á flokksþingi framsóknarmanna í janúar var ítrekað fagnað þegar ræðumenn töluðu hver á fætur öðrum um að gefa Sjálfstæðisflokknum frí frá landsstjórninni. Það var einmitt á þeim grundvelli sem Framsóknarflokkurinn bauðst til að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna falli fram að kosningum í lok apríl.

Annars ætti Skúli að hafa reynslu af því að vera opinn í báða enda eftir að hafa kúrt undir sömu sæng með „höfuðóvini“ Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokki vorið 2007. Þá var kátt í bæ Samfylkingar og Skúli tók fullan þátt í því, þótt gamanið ætti eftir að kárna eins og flestir þekkja. Nú lætur Skúli eins og hann hafi aldrei í dyngju sjálfstæðismanna komið. Hann ætti því fremur að líta í sinn eigin Samfylkingarbarm heldur en að gera framsóknarmönnum upp skoðanir í þessum efnum.




Skoðun

Sjá meira


×