Skoðun

Upplýsingar vegna frétta af REI

Hjörleifur B. Kvaran skrifar

Í mánudagsútgáfu Fréttablaðsins er fjallað um fjárfestingar íslenskra fyrirtækja vegna jarðhitaverkefna vestan hafs á vegum Iceland America Energy (IAE), sem um árabil hefur verið í eigu íslenskra aðila. Má skilja fréttina þannig að Reykjavík Energy Invest (REI) hafi lagt tæpa tvo milljarða króna í orkuútrás í Bandaríkjunum og tapað þeim fjármunum.

Það er ekki rétt. Stjórn REI, sem skipuð er fulltrúum meirihluta og minnihluta í borgarstjórn, er samhuga í því að standa vörð um verðmætin í fyrirtækinu við aðstæður sem að sumu leyti eru hagfelldar, að öðru leyti ekki.

IAE var stofnað árið 2004 sem eitt af dótturfélögum Enex hf. og hefur frá upphafi unnið að þróun jarðhitaverkefna í Bandaríkjunum. Auk IAE stofnaði Enex dótturfélög í Þýskalandi og Kína og hafa þau unnið að þróun fjölmargra jarðhitaverkefna. Erfiðlega hefur þó gengið að fjármagna slík þróunarverkefni.

Geysir Green Energy hefur farið með ráðandi eignarhlut í Enex og dótturfélögum þess frá árinu 2007. Í ársbyrjun 2008 hófust viðræður milli fyrirtækjanna um framtíð Enex og átti Geysir þá 73% hlutafjár í Enex en REI var minnihlutaeigandi með 26%.

Ákveðið var að skipta eignum og verkefnum Enex á milli eigenda í byrjun þessa árs enda staða félagsins mjög tvísýn hvað varðar rekstur og fjármögnun einstakra verkefna. Við það kæmi í hlut REI að verja þau verðmæti sem skapast hafa með framlögum Orkuveitu Reykjavíkur til Enex og forvera þess allt frá árinu 1969.

Samkomulag náðist um að REI yfirtæki hlut Enex í dótturfélaginu í Bandaríkjunum en Geysir fengi verkefni Enex í Þýskalandi og aukinn hlut í Enex-Kína og á Filippseyjum.

Á vegum REI er nú verið að skoða framtíð IAE, m.a. hvort forsendur eru fyrir því að fá nýja fjárfesta að því eða einstökum verkefnum þess. Sú vinna hefur staðið yfir þann mánuð sem REI hefur farið með meirihlutavald í IAE. Á næstu vikum og mánuðum ræðst hvernig úr rætist.

Staða fjármálamarkaða hefur vitaskuld áhrif á verkefni sem þetta. Á móti kemur stóraukinn áhugi á nýtingu jarðhita til orkuframleiðslu í Bandaríkjunum.

Markmið REI, samkvæmt stefnu nýrrar stjórnar fyrirtækisins, sem tók við í mars 2008, er að standa við gerðar skuldbindingar en hverfa frá hugmyndum um að Orkuveitan leggi fram marga milljarða króna til orkuverkefna erlendis.

Höfundur er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×