Innlent

Úrræði fyrir atvinnulaus ungmenni kynnt

Atvinnuleysi Atvinnuleysi hefur fjórfaldast á síðastliðnu ári og var skráð um átta prósent í nóvember.fréttablaðið/gva
Atvinnuleysi Atvinnuleysi hefur fjórfaldast á síðastliðnu ári og var skráð um átta prósent í nóvember.fréttablaðið/gva

Stefnt er að því að koma á fót margvíslegum úrræðum fyrir ungt, atvinnulaust fólk á næsta ári. Áætlað er að 1,3 milljörðum króna verði varið í verkefnið á næsta ári. Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kynnti í gær sérstakt átak ráðuneytisins í þeim efnum.

2.700 ungmenni á aldrinum sextán til 24 ára eru atvinnulaus um þessar mundir og hópurinn fer stækkandi. „Það sem einkennir þennan hóp er mjög stutt skólaganga,“ segir Árni Páll. Samkvæmt upplýsingum úr atvinnuleysisskrá eru sjötíu prósent atvinnulausra undir þrítugu aðeins með grunnskólapróf. Hlutfallið hjá atvinnulausum í heild er fimmtíu prósent.

Árni Páll segir rannsóknir í öðrum löndum sýna að unga fólkið sé í gríðarlegri hættu á að lenda utan vinnumarkaðar til langframa, sé ekkert að gert. „Við teljum það skipta gríðarlega miklu að grípa inn í strax. Við höfum þess vegna lagt á það þunga áherslu að tryggja fjármagn til verkefna sem gera okkur kleift að mæta þörfum hvers og eins. Að hver og einn fái einstaklingsviðtal þar sem fundið er út hvað viðkomandi vill helst gera.“

Úrræðin sem um ræðir eru fjölbreytt. Gert er ráð fyrir því að allt að 450 manns geti komist að í framhaldsskólum landsins og jafn margir í starfsþjálfun og störf við verkefni hjá félagasamtökum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þá ert gert ráð fyrir því að allt að 700 manns geti komist í nám á vegum símenntunarstöðva og frumgreinadeilda. Einnig er gert ráð fyrir um 400 nýjum plássum á vinnustofum og í endurhæfingar- og meðferðarúrræðum.

Loks er gert ráð fyrir því að um 400 ný sjálfboðastörf skapist, og segir Árni Páll mikinn áhuga vera á því að nýta krafta atvinnulausra, meðal annars hjá Rauða krossinum og íþróttahreyfingunni. Hjá Rauða krossinum er stefnan sett á jafningjafræðslu, þar sem atvinnulausir ráðleggi öðrum í sömu sporum.

Unnið hefur verið að verkefninu frá byrjun sumars og mun Vinnumálastofnun stýra því.

„Það sem við erum að leggja upp með er mjög metnaðarfull aðgerð og til þess að þetta gangi þarf allt samfélagið að taka höndum saman, þetta er mikilvægt samfélagslegt verkefni. Fyrir hvern einstakling sem er bótaþegi út lífið er áætlað að kostnaður sé í kringum 300 milljónir starfsævina á enda. Það er því til mikils að vinna.“

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×