Innlent

Nour kemur aftur til landsins í kvöld

Nour meðan hann bjó í Reykjanesbæ Íraski flóttamaðurinn fór út með íslenskar krónur einungis og þurfti því að lifa spart í Aþenu. Hann hefur fengið að sofa í kirkju einni síðustu daga.
Mynd/Víkurfréttir
Nour meðan hann bjó í Reykjanesbæ Íraski flóttamaðurinn fór út með íslenskar krónur einungis og þurfti því að lifa spart í Aþenu. Hann hefur fengið að sofa í kirkju einni síðustu daga. Mynd/Víkurfréttir

Íraski flóttamaðurinn Nour Al-din Al-Azzawi snýr aftur til Íslands á ellefta tímanum í kvöld eftir tveggja mánaða dvöl í Grikklandi. Hann var sem kunnugt er sendur þangað á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins, við mótmæli Rauða krossins og ýmissa einstaklinga.

Strax og Nour kom til Grikklands byrjuðu vinir hans á Íslandi að safna fyrir uppihaldi hans og hugsanlegri heimkomu. Helena Stefánsdóttir leikstjóri stofnaði fyrir hann reikning og söfnuðust hátt í fjögur hundruð þúsund krónur. Hún getur því borgað flugið til landsins.

Á Grikklandi féll Nour frá umsókn sinni um pólitískt hæli, sem er mjög erfitt að fá, og bað þess í stað um að fá atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.

„Hann fær að vera hér á meðan á grundvelli þess hvað hann er ungur [fæddur 1990] og þar sem hann er búinn að mynda tengsl hér á landi. Hann á hér kærustu og er með vinnu," segir Helena Stefánsdóttir.

Nour sjálfur segist feginn að fá að koma til Íslands, ekki sem hælisleitandi heldur sem frjáls maður. Hann hafi farið til margra Evrópulanda, en á Íslandi vilji hann vera. Hér sé hans heimili, atvinna og vinir. Spurður um dvölina í Grikklandi segir Nour:

„Nei, ég hef ekki verið í flóttamannabúðum. Fyrstu nóttina stungu þeir mér í fangelsi á flugvellinum og töluðu við mig í fimm mínútur daginn eftir. Ég sagði þeim að ég vildi ekki vera hælisleitandi í Grikklandi. Þeir létu mig þá skrifa undir eitthvað á grísku og sögðu mér að ég væri frjáls. Síðan hef ég verið á götunni, og svaf til dæmis í kirkju í nótt."

Kristrún Kristinsdóttir, skrifstofustjóri í dóms- og mannréttindaráðuneytinu, segir máli Nours lokið hjá ráðuneytinu og hann sé nú alfarið á vegum Útlendingastofnunar.

„Ráðuneytið kemur ekkert að þessari ákvörðun, enda er það kærustig í slíkum málum og skiptir það sér ekki af þeim, til að viðhalda hlutleysi sínu," segir hún. Ekki sé því hægt að tala um stefnubreytingu í málefnum flóttamanna, í það minnsta ekki hjá ráðuneytinu.

Rósa Dögg Flosadóttir, settur forstjóri Útlendingastofnunar, neitar því einnig að um stefnubreytingu sé að ræða, að því leytinu til að Nour fái að dvelja hér á meðan umsóknin er til umsagnar.

„Þetta kemur alloft fyrir. Það er heimild í lögum til þess að víkja frá meginreglunni um að umsækjandinn skuli dveljast erlendis á meðan umsókn hans er til skoðunar. Það var óskað eftir undanþágu frá þessu og á þá ósk var fallist," segir hún.

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×