Lífið

Íslenskur vefhönnuður hitti drottninguna

Jón Rúnar Guðjónsson Jóhannesson tekur í höndina á Margréti Danadrottningu. mynd/guðjón reynir jóhannesson
Jón Rúnar Guðjónsson Jóhannesson tekur í höndina á Margréti Danadrottningu. mynd/guðjón reynir jóhannesson

„Hún var fín. Mér fannst hún mjög innileg konan og gaman af því að hún nenni að taka í hendurnar á fólki sem stendur sig vel,“ segir Jón Rúnar Guðjónsson Jóhannesson, sem hitti Margréti Danadrottningu fyrir skömmu.

Athöfnin átti sér stað í danska ráðhúsinu til heiðurs þeim sem fengu hæstu einkunnir í iðnnámi í landinu. Alls voru um sjö hundruð manns viðstaddir. Jón Rúnar útskrifaðist sem „medie­grafiker“, eða nokkurs konar prentari og vefhönnuður, eftir fjögurra ára nám. Fékk hann 12 í meðaleinkunn, sem var sú hæsta mögulega. Einn annar nýútskrifaður Íslendingur fékk að hitta drottninguna við sama tækifæri, eða Hjalti Lýðsson konditori, sem Fréttablaðið ræddi einmitt við á dögunum. „Þetta er heilmikill heiður en annars var þetta bara rólegt, þannig séð. Þetta er rosalega flott hús líka,“ segir Jón Rúnar um ráðhúsið.

Útskriftarverkefni hans var heimasíða fyrir íslenska rapparann Opee. Á lærlingstíma sínum hefur hann útbúið fjölda annarra heimasíðna, meðal annars fyrir Carlsberg-fyrirtækið.

Jón Rúnar er kvæntur danskri konu og eiga þau tvö börn. Hann ætlar sér að búa áfram í Danmörku enda hefur hann úr nægum verkefnum að moða sem hönnuður í hæsta gæðaflokki.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.