Erlent

Furða sig á forsetavali Evrópusambandsins

Óli Tynes skrifar
Herman Van Rompuy fyrsti forseti Evrópusambandsins.
Herman Van Rompuy fyrsti forseti Evrópusambandsins. Mynd/AP

Margir fjölmiðlar í Evrópu hafa lýst furðu sinni og vonbrigðum yfir því að Herman Van Rompuy forsætisráðherra Belgíu skyldi vera valinn fyrsti forseti Evrópusambandsins.

Fjölmiðlarnir telja að hann hafi hvergi nærri þá vikt sem þurfi til þes að keppa við Bandaríkin og Kína í heimspólitíkinni.

-Hermann hvað? spurði sænska blaðið Dagens Nyheter í forystugrein. Blaðið sagði að þetta þýddi að Evrópusambandið fengi óþekktan leiðtoga sem Evrópubúar geti ekki samsamað sig við.

Dagens Nyheter sagði að málið hefði horft öðruvísi við ef sambandið hefði valið Tony Blair sem forseta.

Spænska blaðið El Pais sagði að tvær óþekktar og leiðinlegar manneskjur hefðu valist til þess að stýra Evrópusambandinu og átti þar við Van Rompuy og Catherine Ashton sem verður utanríkisráðherra.

Þýska blaðið Frankfurter Rundschau sagði að ESB hefði valið sér leiðtoga sem hefðu enga útgeislun, enga framtíðarsýn og enga reynslu á nauðsynlegum sviðum.

Liberation í Frakklandi sagði ánægjulegt að það hefði þó verið valin kona í annað aðalstarfið, þótt hún væri raunar ekki sú skarpasta sem völ væri á.

Belgiskir fjölmiðlar voru hinsvegar býsna stoltir yfir sínum manni. De Standaard sagði í fyrirsögn; „Ný stjarna fyrir Evrópu"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×