Erlent

Indverjar skutu eldflaug í tilraunaskyni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þessi eldflaug er af gerðinni Agni-III.
Þessi eldflaug er af gerðinni Agni-III.

Indverjar hafa skotið á loft meðaldrægri kjarnorkueldflaug í tilraunaskyni en flaugin getur borið kjarnavopn.

Eldflaugin Agni-II, en agni þýðir eldur á hindí og sanskrít, hóf sig til flugs í gærkvöldi að indverskum tíma frá eyju við austurströnd Indlands. Um var að ræða tilraunaskot en Agni-II hefur rúmlega 2.000 kílómetra flugþol og getur borið kjarnaodd sem vegur allt að eitt tonn. Agni-eldflaugarnar eru þær fullkomnustu sem Indverjar luma á í vopnabúri sínu en ekki er lengra síðan í fyrra að flaggskipið Agni-III var prufukeyrt en það er langdræg flaug sem hæft getur skotmörk í yfir 3.000 kílómetra fjarlægð sem táknar að borgir á borð við Peking og Shanghai í Kína eru innan færis hennar.

Skotið í gær markar þau tímamót að það er fyrsta tilraunaeldflaugaskot indverska hersins sem fram fer að kvöldlagi. Eftir þessa tilraun á herinn að vera fær um að skjóta á loft eldflaug án aðstoðar vísindamanna en það þykir töluvert skref í varnarmálum landsins. Flaugin er 20 metrar að lengd en þó þannig úr garði gerð að auðvelt er að flytja hana á hreyfanlegum skotpalli og skjóta henni á loft með litlum fyrirvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×