Enski boltinn

Itandje baðst afsökunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá minningarathöfninni um Hillsborough.
Frá minningarathöfninni um Hillsborough. Nordic Photos / Getty Images
Charles Itandje hefur margbeðist afsökunar á framferði sínu á minningarathöfn um Hillsborough-harmleikinn.

Itandje náðist á myndband þar sem hann virðist brosa og gantast við liðsfélaga sinn sem reyndar tekur ekki undir hegðun hans.

Í kjölfarið var Itandje sendur í tveggja vikna launalaust leyfi og má gera ráð fyrir því að hann verði seldur frá félaginu í sumar.

„Ég vil byrja á því að segja að ef hegðun mín móðgaði einhvern vil ég biðja viðkomandi afsökunar," sagði Itandje í samtali við Liverpool Echo.

„I am sorry. I am sorry. I am sorry. A thousand times, I am sorry," bætti hann við og er þýðingar á því varla þörf fyrir lesendur Vísis.

„Ég vil biðja félagið, stuðningsmenn og sérstaklega fjölskyldur fórnarlambanna sérstaklega afsökunar."

„Það var aldrei ætlun mín að móðga eða vanvirða neinn."

„Það sem gerðist á Hillsborough-leikvanginum var harmleikur og vildi ég ekki vanvirða minninguna um hvað gerðist fyrir 20 árum síðan. Það myndi ég aldrei gera."

„Ég myndi gjarnan vilja ræða við fjölskyldumeðlimina í eigin persónu til að biðja þá afsökunar. Eins og ég sagði, vildi ég ekki vinna neinum mein."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×