Erlent

Fyrrum mafíuforingi handtekinn fyrir ölvun

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ray Liotta, til hægri, í hlutverki Henry Hill.
Ray Liotta, til hægri, í hlutverki Henry Hill.

Mafíósinn Henry Hill, sem Ray Liotta gerði ódauðlegan í kvikmyndinni Goodfellas, var handtekinn fyrir ölvun í St Louis í Kaliforníu á sunnudaginn.

Ætla mætti að Hill, sem nú er 66 ára gamall, hefði verið handtekinn fyrir alvarlegra brot en að vera drukkinn á almannafæri en svo er ekki þar sem mafíudagar hans eru löngu liðnir. Raunar snerist Hill á sveif með alríkislögreglunni FBI og gerðist uppljóstrari en kvikmynd Martin Scorsese, Goodfellas, frá 1990 fjallar einmitt öðrum þræði um það hlutverk hans.

Það var Ray Liotta sem túlkaði Henry Hill af listfengi í myndinni sem vakti verðskuldaða athygli, var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna og hlaut ein auk BAFTA-verðlaunanna og í heild 32 annarra verðlauna á sviði kvikmyndalistarinnar sem verður að teljast nokkuð gott. Henry Hill fæst nú við listmálun og var einmitt viðstaddur sýningu á verkum sínum en hafði fengið sér í aðra tána eins og margir góðir listamenn gera til að auðga andann. Eitthvað auðgaðist andi Hill meira en lögregluyfirvöldum á svæðinu þóknaðist og var hann að lokum leiddur á brott í járnum.

Hann sagðist í viðtali við AP-fréttastofuna í gær ekki muna mikið eftir atburðum helgarinnar en jú jú, hann hafði kannski fengið sér einu glasi of mikið. „Hefur þú ekki einhvern tímann lent í því líka?" spurði Hill blaðamann AP að skilnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×