Viðskipti innlent

Um 90% fást upp í Icesave skuldbindingarnar

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Allt bendir til þess að níutíu prósent fáist upp í Icesaveskuldbindingar Íslands miðað við uppgjör milli gamla og nýja bankans sem gert var um helgina. Um 75 milljarðar króna falla þá á íslensku þjóðina auk vaxta.

Samningar um uppgjör milli nýja bankans og gamla tókust aðfaranótt laugardagsins en skilanefnd Landsbankans og fulltrúar fjármálaráðuneytisins og ráðgjafar þess funduðu um málið í Lundúnum.

Um er að ræða 10 ára skuldabréf upp á 260 milljarða króna og þá mun gamli bankinn eignast um 20% hlut í þeim nýja en sá hlutur er metinn á 28 milljarða króna. Þá er annað skilyrt skuldabréf upp á 90 milljarða króna en samtals nemur uppgjörið milli bankanna þá á bilinu um 290 til 380 milljörðum króna. Með þessu er nýi bankinn að greiða gamla bankanum fyrir þær eignir sem hann tók yfir við bankahrunið á síðasta ári.

Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, segir þetta ásættanlega niðurstöðu.

Ef miðað er við að Icesaveskuldbindingin sé um 750 milljarðar króna sem hefur verið algeng viðmiðun þá munu, samkvæmt þessu, 75 milljarðar króna falla á íslensku þjóðina. Hér er þó ekki búið að gera ráð fyrir vaxtakostnaði auk þess sem ekki er ljóst hversu langan tíma tekur að koma eignum Landsbankans í verð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×