Erlent

Danskt Gullhorn finnst í Pétursborg í Rússlandi

Tveir danskir fornleifafræðingar hafa fundið eftirlíkingu af Gullhorni í Pétursborg í Rússlandi. Gullhornin eru þjóðargersemar Dana en þeim var stolið árið 1802 og síðan brædd upp. Eftirlíkingar þeirra eru til staðar á danska þjóðminjasafninu en það sem vekur athygli við fundinn í Pétursborg er að það horn er smíðað árið 1693 og er úr fílabeini.

Fornleifafræðingarnir hafa sum sé fundið nákvæma eftirlíkingu af dönsku Gullhorni sem er smíðað áður en að þeim var stolið og þau eyðilögð árið 1802. Eftirlíkingarnar sem nú eru á þjóðminjasafninu voru smíðaðar eftir teikningum og eru úr skíragulli.

Í fréttum í dönskum fjölmiðlum í morgun segir annarr fornleifafræðinganna, Jeppe Boel Jepsen, að það hafi lengi verið orðrómur um að þetta Gullhorn sem fannst núna væri til í Rússlandi. Sagan segir að þessa eftirlíkingu úr fílabeini hafi Friðrik IV Danakóngur gefið Pétri mikla keisara Rússlandi er sá síðarnefndi kom í heimsókn til Danmerkur árið 1716.

Hornið fannst nú í vikunni í Vetrarhöllinni í Pétursborg. Þar hafði það legið gleymt niður í skúffu, sennilega frá því að Pétur mikli flutti það fyrst heim með sér á sínum tíma.

Þess má geta að Gullhornunum sem nú eru í þjóðminasafninu danska var stolið haustið 2007 en þau og þjófarnir fundust fljótlega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×