Innlent

Miklar hættur í kringum okkur

Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Það eru miklar hættur á ferðinni í nálægum löndum eins og við sjáum á viðbrögðum ríkisstjórna um allan heim, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund i dag. Robert Wade, prófessor í hagfræði við London School of Economics, sagði í Kastljósi í gær að kreppan ætti líklegast eftir að dýpka. Ríkisstjórn Íslands yrði að bregðast við vandanum á næstu vikum. Geir Haarde sagði að Wade hefði ekki gefist færi á að útskýra nákvæmlega um hvaða viðbrögð hann væri að tala.

Geir sagði að nálæg ríki hefðu lent í miklum vanda vegna alheimskreppunnar. „Það sem er þó það góða fyrir okkur Íslendinga er það að við erum búin að koma okkar málum í ákveðinn farveg og í ákveðið skjól í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og að því leyti til erum við skrefinu á undan ýmsum öðrum," sagði Geir. Hann segir stjórnvöld vera að vinna að því á fullu að bregðast við atvinnuástandinu. „Það vantaði inn i viðtalið við þennan mann í gær hvað hann var að tala nákvæmlega um varðandi aðgerðir. Ríkisstjórnin er náttúrlega á fullu, eins og oft hefur komið fram, að vinna í þessum málum. Og það er verið að vinna að þeim á fleiri en einum vettvangi," sagði Geir. Hann benti á að Íslendingar yrðu varir við samdrátt í nálægum löndum með því að verð á útflutningsafurðum væri að lækka.

Aðspurður sagði Geir að fyrst þyrfti að rannsaka orsök kreppunnar, eins og rannsóknarnefndin vinnur nú að, áður en farið væri að rannsaka hvort viðbrögð stjórnvalda við kreppunni hefðu verið rétt. „Um það er mjög erfitt að dæma vegna þess að það er ekki til nein handbók um það hvernig á að bregðast við svona ástandi," sagði Geir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×