Erlent

Fimmtíu og sjö gíslar myrtir á hryllilegan hátt

Fimmtíu og sjö lík eru nú fundin á Filipseyjum eftir fjöldamorð á gíslum sem teknir voru síðastliðinn mánudag. Í hópnum voru stjórnmálamenn, blaðamenn og lögfræðingar, bæði karlar og konur.

Vegsummerki sýna að eftir að fólkinu var rænt á mánudag var það flutt fimm kílómetra inn í skóglendi og þar var það myrt. Sumir voru skotnir en höfuðin höggvin af öðrum.

Líkin voru svo dysjuð í nokkrum grunnum fjöldagröfum. Ekki er vitað gerla hversu margir voru teknir í gíslingu og því ekki útilokað að fleiri lík finnist.

Konum nauðgað

Af þeim fimmtíu og sjö sem búið er að finna eru 33 karlmenn og 24 konur. Yfirvöld segja að mörgum kvennanna hafi verið nauðgað áður en þær voru hálshöggnar.

Morðin tengjast héraðsstjórakosningum sem haldnar verða á eynni Mindanao í maí á næsta ári en enginn hefur enn verið sakaður opinberlega um að bera ábyrgð á þeim.

Meðal hinna myrtu var eiginkona og ættingjar Ismaels Mangu-datus sem býður sig fram í héraðsstjórakosningunum.

Fjöldi blaðamanna

Fólkið var í bílalest á leið til kjörstjórnar til þess að fylla út framboðsgögn hans. Talið er að árásarmennirnir hafi verið um eitthundrað talsins.

Meðal hinna myrtu voru 22 blaðamenn sem voru að fylgjast með.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×