Innlent

Tjón vegna jarðskjálfta á sjöunda milljarð króna

Áætlað er að tjón vegna jarðskjálftans á Suðurlandi síðasta vor nemi á sjöunda milljarð króna. Af því greiðir ríkið rúmar sjö hundruð milljónir króna í styrki meðal annars vegna tjóns sem ekki fæst bætt hjá Viðlagatryggingu.

Alls kemur ríkið til með að greiða 733 milljónir króna í styrki vegna skjálftans. Ríflega helmingurinn eða rúmar fjögur hundruð milljónir króna eru styrkir til einstaklinga vegna tjóns sem að tryggingar ná ekki til eins og ótryggð hús í byggingu.

Hægt verður að tilkynna um tjón vegna skjálftans út árið 2012 og því liggur endanlegt tjón ekki strax fyrir. Viðlagatrygging á auk þess enn eftir að meta endanlega fjölmörg hús.

Þegar hefur Viðlagatrygging greitt 4,6 milljarða króna vegna tjóna sem tengjast skjálftanum. Áætlað er að Viðlagatrygging greiði því til viðbótar um milljarð. Með því sem ríkið greiðir er því búist við að greiddir verði rúmir 6,3 milljarðar króna vegna tjóna sem tengjast skjálftanum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×