Erlent

Loksins fékk draumurinn vængi

Óli Tynes skrifar
Boeing 787 eftir fyrsta flug. Hún er óneitanlega straumlínulöguð og rennileg.
Boeing 787 eftir fyrsta flug. Hún er óneitanlega straumlínulöguð og rennileg. Mynd/AP

Fyrsta flug nýju Boeing 787 Dreamliner þotunnar í gær tókst með ágætum vel. Ýmsar tafir ollu því að það var tveimur árum á eftir áætlun.

Þessar tafir hafa kostað verksmiðjurnar milljarða dollara í töpuðum tekjum og bótum til flugfélaga sem fengu ekki vélar sínar afhentar á réttum tíma.

Þegar er búið að panta 840 Dreamliner þotur og stefnt er að því að fyrstu vélarnar verði afhentar japanska flugfélaginu All Nippon Airways á síðari hluta næsta árs.

Þotan er óvenju létt miðað við vélar af þessari stærð. Það kemur meðal annars til af því að hún er að hálfu byggð úr koltrefjaefnum í stað áls og títaníums.

Boeing verksmiðjurnar segja að vegna þessa og vegna þess hve vélin sé straumlínulöguð eyði hún tuttugu prósentum minna eldsneyti en sambærilegar vélar.

Jafnframt sé farþegarýmið þægilegra, loftið þar sé betra og gluggar stærri. Ýmsar gerðir þotunnar verða framleiddar fyrir mismunandi farþegafjölda og mismunandi vegalengdir.

Tegundin sem var prufuflogið í gær getur flutt 250 farþega yfir fjórtán þúsund kílómetra vegalengd.

Tegund sem ætluð er fyrir skemmri vegalengdir mun hafa sæti fyrir 330 farþega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×