Erlent

Óttast herferð gegn norsku laxeldi

Óli Tynes skrifar

Sendiráð Noregs hafa verið sett í viðbragðsstöðu vegna samtaka sem hafa hafið herferð gegn norsku laxeldi.

Samtökin Pure Salmon Campaign eru að ferðast um heiminn með myndband sem kallað er Flett ofan af Laxeldi.

Á myndbandinu er því haldið fram að Norðmenn skaði bæði fólk og náttúru í Írlandi, Skotlandi, Kanada og Chile þar sem þeir eiga eldisstöðvar.

Því er haldið fram að í Chile sé laxi gefið fimmþúsund sinnum meira af fúkkalyfjum en í norskum eldisstöðvum.

Samtökin segja að Norðmenn ógni viltum laxastofnum vegna laxalúsar og sjúkdóma sem herji á stöðvar þeirra. Sýktir laxar sleppi úr eldisstöðvunum og stefni villtum laxi í hættu.

Náttúruverndarsamtök Noregs hafa tekið málið upp. Ríkið á meirihluta í laxeldisstöðvinni Cermaq og samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin skoði þau alvarlegu brot sem Cermaq er sakað um.

Norska fiskútflutningsráðið hefur einnig tekið málið upp. Í bréfi til laxeldisstöðvar segir að aðgerðir Pure Salmon Campaign séu teknar mjög alvarlega. Öllum sendiráðum Noregs hafi verið send aðvörun vegna myndbandsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×