Innlent

Hraðakstur minnkar í Hafnarfirði

Dregur úr hraðakstri í Hafnarfirði.
Dregur úr hraðakstri í Hafnarfirði.

Sjö ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Kirkjuvöllum í Hafnarfirði í gær en þar var staðsett ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði.

Sjö ökumenn voru myndaðir við að brjóta umferðalög á Kirkjuvöllum en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í vesturátt, á milli Berjavalla og Ásbrautar. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 52 ökutæki þessa akstursleið og því óku 13 prósent ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða.

Meðalhraði hinna brotlegu var 47 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði, hraðahindranir og gangbrautir. Þrír óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 62.

Fyrir nákvæmlega ári var lögreglan við hraðamælingar á þessum sama stað á Kirkjuvöllum. Þá óku hlutfallslega miklu fleiri of hratt eða yfir afskiptahraða, eða 77 prósent.

Meðalhraði hinna brotlegu var sömuleiðis hærri í fyrra, eða 48 km/klst. Þessa jákvæðu þróun á milli ára má ekki síst þakka sveitarfélaginu en hraðahindrandi aðgerðir þess hafa greinilega skilað góðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×