Erlent

Obama vongóður um heilbrigðislög

Barack Obama Takist honum að koma heilbrigðisfrumvarpinu í gegnum þingið yrði það einn stærsti sigur hans.fréttablaðið/AP
Barack Obama Takist honum að koma heilbrigðisfrumvarpinu í gegnum þingið yrði það einn stærsti sigur hans.fréttablaðið/AP

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings komna á fremsta hlunn með að samþykkja nýja heilbrigðislöggjöf.

Þetta sagði hann eftir að hafa rætt við flokkssystkini sín í Demókrataflokknum á þriðjudag. Hann sagði enn vera ágreining um ýmis atriði í frumvarpinu, en leiðtogar flokksins vonist samt til að það verði afgreitt fyrir jól.

„Endanleg útgáfa frumvarpsins mun ekki innihalda allt sem allir vilja. Ekkert frumvarp getur það,“ sagði Obama.

Ágreiningsmálin snúast meðal annars um fóstureyðingar og heilsugæslu aldraðra.

Joe Lieberman, óháður þing­maður sem oftast hefur greitt atkvæði samhljóða demókrötum, segist vera andvígur þeim breytingum sem ætlunin er að gera á Medicare-kerfinu, sem lýtur að heilsugæslu aldraðra.

Hann hótar að ganga til liðs við repúblikana og greiða atkvæði gegn heildarfrumvarpinu ef ákvæðin um Medicare verða ekki tekin út. Hins vegar er hann sáttur við frumvarpið að öðru leyti. Leiðtogar demókrata hafa áratugum saman reynt að ná fram breytingum á heilbrigðislöggjöf Bandaríkjanna til að tryggja öllum íbúum landsins sjúkratryggingar. Málið er eitt það stærsta, sem Obama hafði á stefnuskrá sinni og teldist verulegur sigur ef honum tekst að koma því í gegnum þingið.

Með frumvarpinu er tryggt að þrjátíu milljónir Bandaríkjamanna, sem hafa verið án sjúkratrygginga, njóti framvegis trygginga.

Til þess að frumvarpið verði samþykkt þurfa demókratar að tryggja sér sextíu atkvæði í öldungadeildinni, þar sem 100 þingmenn eiga sæti. Greiði Lieberman atkvæði með frumvarpinu er aðeins óvissa um einn demókrata, Ben Nelson, sem reynt hefur að fá í gegn takmarkanir á heimildum ríkisins til þess að greiða fyrir kostnað við fóstureyðingar.

Í fulltrúadeildinni var frumvarpið samþykkt án heimildar til að greiða fyrir fóstureyðingar, en leiðtogar demókrata í öldungadeildinni hafa lagt áherslu á að slík heimild verði með.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×