Innlent

Öll atriði samkomulagsins uppfyllt

Fjárlaganefnd að störfum.
Fjárlaganefnd að störfum. MYND/Vilhelm

Meirihluti fjárlaganefndar segir að öll atriði samkomulags sem gert var um Icesave málið til þess að unnt yrði að ljúka annari umræðu þess hafi verið uppfyllt og því eðlilegt að málið fari til þriðju umræðu eins og nú hefur verið ákveðið, í andstöðu við minnihluta nefndarinnar. Í tilkynningu sem meirihlutinn hefur sent frá sér er farið yfir öll 16 atriði samkomulagsins sem gert var í byrjun desember og bent á að þau séu öll uppfyllt.

„Auk fjárlaganefndar fjölluðu Efnahags- og skattanefnd, Utanríkismálanefnd og Viðskiptanefnd um ákveðna þætti samkomulagsins og hafa nefndirnar allar skilað fjárlaganefnd áliti sínu á þeim þáttum," segir í tilkynningunni.

Þá er bent á að fyrir liggi álit bresku lögfræðistofanna Ashurst og Myschon de Reya á texta samninganna sem og öðrum þeim atriðum sem óskað var eftir að þær gæfu álit sitt á.

Álit lögfræðinga komin fram

„Þrír íslenskir lögfræðingar hafa skilað inn álitum sínum á því hvort frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave- samningana standist ákvæði stjórnarskrár Íslands. Leitað hefur verið til Seðlabanka Íslands varðandi áhrif skilyrðislausrar greiðsluskyldu á vöxtum og fjárhagslegrar þýðingar á efnahagslegum fyrirvörum Alþingis. Seðlabankinn hefur sömuleiðis lagt mat á hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir fela í sér. Seðlabanki Íslands og IFS hafa gefið álit sitt á áhrifum skilyrðislausra greiðsluskyldu vaxta og unnið áhættumat á þeim skuldbindingum sem í samningunum felast," segir meirihlutinn.

Þá er bent á að fyrir liggi gögn frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu á samanburð á föstum og breytilegum vöxtum og ráðuneytið hefur einnig, eins og önnur ráðuneyti, lagt fram þau gögn sem óskað hefur verið eftir og til eru af fundum íslenskra ráðherra og erindreka þeirra í tengslum við þetta mál.

Geir og Ingibjörg hafa veitt upplýsingar

„Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra hafa hvort um sig veitt þær upplýsingar sem óskað var eftir frá þeim í samkomulagi stjórnarandstöðunnar og forseta Alþingis."

Að lokum segir að öll önnur atriði samkomulagsins hafi verið uppfyllt eins og kostur er og gert var ráð fyrir í upphafi málsins og því er það álit meirihluta fjárlaganefndar að staðið hafi verið í einu og öllu við það samkomulag sem gert var á milli formanna stjórnarandstöðunnar og forseta Alþingis um meðferð þessa máls og þeirra upplýsinga aflað sem óskað var eftir í samkomulaginu.






Tengdar fréttir

Icesave frumvarpið afgreitt úr fjárlaganefnd

Frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningana var afgreitt úr fjárlagaefnd í hádeginu í dag. Málið var tekið úr nefndinni í ágreiningi að sögn Höskulds Þórhallssonar þingmanns Framsóknarflokksins. Meirihlutinn setti fram álit sitt í málinu og ákvað að vísa því til þriðju umræðu og segir Höskuldur að sú umræða fari fyrir þingið á milli jóla og nýárs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×