Enski boltinn

Keane ráðinn stjóri Ipswich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Keane, stjóri Ipswich.
Roy Keane, stjóri Ipswich. Nordic Photos / Getty Images
Roy Keane er nýr knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Ipswich en það var tilkynnt nú í dag.

Keane skrifaði undir tveggja ára samning við félagið sem rak Jim Magilton úr starfi í gær.

Keane var síðast stjóri Sunderland en hætti í því starfi í desember síðastliðnum.

„Ég trúi því að ég sé að fara til félags sem hefur allt sem til þarf til að komast í úrvalsdeildina á nýjan leik," sagði Keane í samtali við enska fjölmiðla í dag.

Marcus Evans keypti Ipswich síðla árs 2007 og hefur síðan þá eytt tólf milljónum punda í leikmannakaup. Hann ætlar félaginu að fara upp í úrvalsdeildina hið fyrsta.

Ipswich er sem stendur í níunda sæti ensku B-deildarinnar með 60 stig, tólf stigum frá umspilssæti þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið á því ekki möguleika að komast upp þetta tímabilið.

Keane tók við Sunderland árið 2006 þegar liðið var í B-deildinni og kom liðinu upp í fyrstu tilraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×