Erlent

Kína og Bandaríkin valda vonbrigðum í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar

Kínverjar hafa tilkynnt að þeir muni mæta á ráðstefnuna í Kaupmannahöfn með loforð um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 40-45 prósent fyrir árið 2020. Viðmiðunin er árið 2005.

Þetta er í fyrsta skipti sem Kínverjar tilkynna opinberlega um áform sín í loftslagsmálum. Kína mengar mest allra þjóða.

Númer tvö eru Bandaríkin. Þau hafa tilkynnt að Barack Obama muni mæta til Kaupmannahafnar með loforð um sautján prósenta minnkun.

Hvorttveggja lítur þetta ágætlega út á pappírnum en það minnkar þó þegar grannt er skoðað.

Í fyrsta lagi miða bæði löndin við 2005 en flest önnur lönd miða við árið 1990. Í tilfelli Bandaríkjanna hefur útblástur aukist um 15 prósent síðan 1990 þannig að loforð þeirra nú er svona hérumbil loforð um að standa í stað.

Hvað Kína snertir er ólíklegt að þeirra loforð þótt stórtækt sé nái að hanga í aukinni mengun vegna hins hraða hagvaxtar.

Sérfræðingar segja að hans vegna muni útblástur að öllum líkindum aukast.

Á það verður þó að líta að sú aukning hefði náttúrlega orðið gríðarleg ef Kínverjar hefðu ekki sett sér fyrrnefnd markmið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×