Innlent

Tilfærslan kemur niður á þjónustunni

Mynd/Anton Brink
Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir rangfærslur í yfirlýsingu félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem sendi fjölmiðlum í dag. Hann segir engan vafa um að áform stjórnvalda um að flytja þjónustu á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis komi niður á heilbrigðisþjónustu.

Í tilkynningu í dag lýsir félags- og tryggingamálaráðuneytið undrun á fjölmiðlaumfjöllun um andstöðu við áform stjórnvalda um að flytja þjónustu á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Umrædd breyting hafi átt sér stað fyrir tveimur árum með lagabreytingu sem gerð hafi verið eftir víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst alfarið gegn tilfærslunni. Guðlaugur segir alrangt að breytingin hafi átt sér stað fyrir tveimur árum.

„Fagleg og fjárhagsleg ábyrgð verður ekki lengur á sömu hendi með þessari fyrirhuguðu breytingu eins og hjúkrunarfræðingar hafa bent á. Það er þvert á það sem stefnt hefur verið að annar staðar í heilbrigðisþjónustu," segir Guðlaugur í tilkynningu.

Guðlaugur segir að þetta muni komi niður á heilbrigðisþjónustunni. „Það er engin vafi að þetta kemur niður á heilbrigðisþjónustu og hefur til dæmis komið fram hjá forystumanni í samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu að þetta þýði minni áherslu á heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum."


Tengdar fréttir

Hjúkrunarfræðingar andsnúnir tilfærslu

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst alfarið gegn þeim hugmyndum ríkisstjórnarinnar að færa alla þjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Stjórn félagsins hvetur þingmenn til að greiða atkvæði gegn fyrirhuguðum flutningi þegar frumvarp til fjárlaga 2010 verður tekið til afgreiðslu á Alþingi.

Ráðuneyti undrast fréttaflutning

Félags- og tryggingamálaráðuneytið lýsir undrun á fjölmiðlaumfjöllun um andstöðu við áform stjórnvalda um að flytja þjónustu á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Umrædd breyting hafi átt sér stað fyrir tveimur árum með lagabreytingu sem gerð hafi verið eftir víðtækt samráð við hagsmunaaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×